Verslanir
„Í verslunum Bláa Lónsins er lögð höfuðáhersla á upplifun gestsins með framúrskarandi þjónustu.”
Verslanir í Svartsengi, Flugstöð og á Laugavegi
Rekstur verslana Bláa Lónsins gekk vel árið 2019 og var árið það veltuhæsta frá upphafi þar sem velta jókst um 6% frá fyrra ári.
Eins og áður var lögð höfuðáhersla á að hámarka upplifun viðskiptavina með framúrskarandi þjónustu. Verslun Bláa Lónsins í Svartsengi var færð í nýtt útlit og verslanir tóku við rekstri verslunarsvæða á Retreat Spa, Retreat hóteli og Silica hóteli á árinu 2019. Töluverð söluaukning var á þessum svæðum á árinu. Mikil áhersla hefur verið lögð á svokallaða þverfaglega þjálfun þar sem starfsfólk annarra viðskiptaeininga fær fræðslu um húðvörur Bláa Lónsins hjá starfsfólki verslana.
Þá var lögð áhersla á að fækka birgjum og einfalda vöruframboð í verslunum á árinu og gengið var til samstarfs við sérvalda íslenska hönnuði um framleiðslu á sérmerktum vörum undir vörumerkjum Bláa Lónsins.
Í nóvember árið 2019 hófst sala á nýrri vöru, Algae Bioactive Concentrate. Viðtökurnar voru gríðarlega góðar og var sala vel yfir áætlunum.
„Sala í vefverslun Bláa Lónsins jókst um 27% milli ára en 9.991 pöntun kom í gegnum vefverslunina árið 2019.”
Vefverslanir
Sala á húðvörum Bláa Lónsins gekk vel erlendis í gegnum vefverslanir í Evrópu og Bandaríkjunum. Fjöldi pantana jókst um 25% milli ára og var veltuaukning um 16% milli ára. Vefverslanir eiga sér orðið nokkurn fjölda fastra viðskiptavina en um 30% viðskiptavina höfðu verslað einu sinni áður eða oftar sem telst mjög góður árangur.
Í desemberútgáfu Vogue í Bandaríkjunum, á síðasta ári, var Bláa Lóns sjampóið valið eitt af tíu bestu sjampóum fyrir þurrt hár. Þessi viðurkenning hafði mjög góð og jákvæð áhrif á sölu húðvaranna á Bandaríkjamarkaði.