Veitingar

,,Moss Restaurant hefur hlotið einróma lof meðal gesta og matargagnrýnenda auk viðurkenningu Michelin fyrir einstaka matarupplifun og framúrskarandi þjónustu.”

Árið 2019 var fyrsta heila rekstrarárið eftir að hótel- og veitingasvið voru sameinuð í eitt svið en fjöldi stöðugilda á sameiginlegu sviði var 297 á árinu. Sviðið ber ábyrgð á rekstri tveggja hótela og fjögurra veitingastaða á svæðinu auk þess að reka matstofu starfsmanna. Mikið er lagt upp úr ráðningu fagmenntaðs fólks og á sviðið í góðu samstarfi við Caesar Ritz hótelskólann í Sviss og Zadkine Hospitality College í Hollandi. Þá hefur sviðið átt afar gott og náið samstarf við Hótel- og matvælaskólann við Menntaskólann í Kópavogi um langt árabil.

Moss Restaurant

Moss Restaurant hlaut áfram frábærar viðtökur á árinu 2019. Staðurinn hefur á skömmum tíma stimplað sig inn sem einn besti veitingastaður landsins þar sem gæði og fagmennska eru í fyrirrúmi. Flestir gestir staðarins eru hótelgestir af Retreat og Silica Hótelunum. Á árinu voru haldnir fágætir viðburðir þar sem m.a. hinn heimsþekkti meistarakokkur, Raymond Blanc, var gestakokkur. Þá var Aggi Sverrisson frá Texture Restaurant í London einnig gestakokkur á Moss. Síðastliðið haust var haldinn sérstakur viðburður fyrir hótelgesti á Retreat hótelinu í samstarfi við eigendur og framleiðendur Boerl & Kroff, sem er eitt dýrasta kampavín í heimi. Staðurinn hefur vakið athygli og hlotið einróma lof meðal gesta og matargagnrýnenda.

Lava Restaurant

Lava Restaurant er afar vinsæll meðal gesta Bláa Lónsins sem og hótelgesta á Retreat hóteli og Silica hóteli. Salan gekk vel á árinu þrátt fyrir fækkun gesta í lóninu á milli ára. Áhersla er lögð á að stilla saman góða og skilvirka þjónustu við hópa og einstaklinga með gæði hráefnis og einfaldleika að leiðarljósi. Staðurinn er einn sá afkastamesti á landinu og hefur tekið á móti hátt í 900 gestum á einum degi. Staðurinn tók á móti 151 þúsund gestum á síðasta ári, þar með talinn var milljónasti gesturinn frá upphafi. Lava Restaurant fékk áfram frábæra dóma og viðbrögð frá gestum og mataráhugafólki.

Spa Restaurant

Spa Restaurant er sérstaklega ætlaður gestum Retreat Spa og hótelgestum. Lögð er áhersla á ferska og heilnæma rétti úr gæðahráefni. Staðurinn er þannig orðinn þekktur fyrir ferskleika og heilsutengda matarupplifun. Þá sér Spa Restaurant einnig um morgunmat fyrir hótelgesti á Retreat hóteli og veitingar í móttökusal hótelsins.

Blue Café

Á kaffihúsinu Blue Café er boðið upp á ferska og létta rétti, drykki og kaffiveitingar. Reksturinn gekk vel á árinu þó svo að minni gestafjöldi hafi haft nokkur áhrif. Allir réttir á Blue Café eru útbúnir í köldu eldhúsi á staðnum. Blue Café rekur einnig hinn sívinsæla Bláa Lóns bar þar sem gestir geta fengið sér létta hressingu úti í lóninu.

Nokkrar staðreyndir

290 tonn

af grænmeti og ávöxtum, þar af 35.745 kg af banönum

37 tonn

af hveiti í brauðin

Yfir 25 tonn

af lambakjöti

Yfir 43 tonn

af fiski frá Grindavík

Yfir 50 tonn

af skyri og 27.500 kg af ávöxtum fóru í boozt

Yfir 20 tonn

af nautakjöti

Start typing and press Enter to search