Umhverfi
„Bláa Lónið kolefnisjafnar umhverfisspor sitt í samstarfi við Kolvið.“
Bláa Lónið uppfyllir ávallt íslensk lög og reglugerðir og leitar stöðugt nýrra leiða til að draga úr áhrifum rekstursins á umhverfið, bæði í nærsamfélaginu og á heimsvísu. Verndun náttúrunnar í nærumhverfi í samstarfi við önnur fyrirtæki og samtök skilar auknum verðmætum til nærsamfélagsins og viðheldur sjálfbærri þróun Bláa Lónsins.
Sjálfbær rekstur
Geocycle
Uppruna Bláa Lónsins má rekja til jarðsjávar sem tekinn er úr jarðlögum um 2.000 metrum undir yfirborði hraunsins sem umlykur rekstur fyrirtækisins. Jarðsjórinn er samsettur úr 2/3 sjó og 1/3 ferskvatni og er um 240°C heitur við upptöku. Jarðsjórinn er ríkur af steinefnum og salti og samsetning þess gerir hann einstakan á sinn hátt. Til að mynda er það útfelling á kísli í jarðsjónum sem gefur lóninu sinn heimsþekkta bláa lit. Þessi vökvi myndar einnig með sér einstakt lífríki þar sem blágrænir þörungar hafa blómstrað við kjöraðstæður. Áralangar vísindarannsóknir á þessum þörungi og eiginleikum lónsins hafa sýnt fram á undraverðan lækningamátt þess, bæði hvað varðar meðferð við psoriasis og einnig virkni gegn öldrun húðarinnar.
Orka
Raf- og varmaorkunotkun Bláa Lónsins er öll frá nærliggjandi jarðvarmaveri og er fullkomlega endurnýjanleg og sjálfbær. Orkunotkun hefur aukist með tilkomu nýrra rekstrareininga, Retreat hótels, Retreat Spa, Moss Restaurant, Spa Restaurant og nýs þvottahúss. Einnig hefur orkunotkun á hvern gest aukist bæði vegna fækkunar gesta árið 2019 og stærra upplifunarsvæðis á hvern gest í nýjum rekstrareiningum. Með áframhaldandi bestun í rekstri stefnir fyrirtækið að því að hámarka nýtni þessara orkustrauma á næstu árum.
Orkunotkun
Heitavatnsnotkun
Vatn
Fullnýting auðlindastrauma er það sem einkennir rekstur og vörur Bláa Lónsins. Það er hluti af stefnu fyrirtækisins að hámarka nýtingu jarðsjávar og annarra auðlindastrauma til að skapa einstaka upplifun og náttúruleg verðmæti. Notkun jarðsjávar síðastliðin tvö ár hefur ekki aukist þrátt fyrir tilkomu nýrra rekstrareininga með nýjum baðlónum. Ástæðan er bestun Viðhaldssviðs fyrirtækisins á nýrri dælustöð sem tekin var í notkun árið 2016 til að jafna flæði og hitastýringu í lónunum. Aukin notkun á köldu vatni samræmist þó annarri orkunotkun vegna stækkunar húsnæðis á síðastliðnum árum.
Notkun á köldu vatni
Notkun á jarðsjó
Hráefni og umbúðir
Bláa Lónið Heilsuvörur ehf. framleiðir hágæðahráefni í húðvörulínu Bláa Lónsins með því að fullnýta jarðsjó, sem er endurnýjanleg og sjálfbær auðlind, rækta blágræna þörunga og nýta mulið hraun úr nærliggjandi umhverfi. Nýjar umhverfisvænni umbúðir eru væntanlegar á markað 2020-2021 gerðar að mestu úr endurvinnanlegum efnum, þá aðallega áli og gleri í stað plastumbúða. Pappakassar utan um umbúðirnar eru gerðir úr timbri frá ábyrgri skógrækt, FSC vottaðir. Stöðugt er unnið að minni sóun í rekstri með því að draga úr magni umbúða og velja fjölnota fram yfir einnota. Ef óhjákvæmilegt er að velja fjölnota umbúðir eru endurnýtanlegar eða endurvinnanlegar umbúðir valdar.
Kolefnisjöfnuð umhverfisspor
Losun gróðurhúsalofttegunda
Loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar er stærsta ógn og áskorun í umhverfismálum sem mannkynið þarf að kljást við í dag. Sú ábyrgð sem fylgir þeirri áskorun liggur á herðum okkar allra og axlar Bláa Lónið ábyrgð sína í þeim efnum. Fjöldi umbótaverkefna síðastliðinna ára hefur skilað árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en með tilkomu nýrra rekstrareininga hefur heildarlosunin aukist. Stærsti áhrifavaldurinn þar er dótturfélag Bláa Lónsins, Destination Blue Lagoon.
Á meðal umbótaverkefna 2019 má nefna: Uppsetningu rafhleðlsustæða í samræmi við þróun bílaflota Íslands og þá helst bílaleiguflota, aukna fræðslu til starfsfólks um áhrif loftslagsbreytinga og vitundarvakningu varðandi matarsóun í mötuneyti starfsfólks. Einnig átti sér stað bestun í rekstri búnaðar og verkferla til að hámarka nýtingu og draga úr sóun. Frekari umbótaverkefni eru í gangi og verða tekin fyrir árið 2020 til að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Kolefnisjöfnun
Árið 2019 skrifaði Grímur Sæmundsen undir samning við Kolvið varðandi kolefnisjöfnun á allri losun Bláa Lónsins fyrir árið 2019. Kolefnisjöfnunin náði til raforku, varmaorku, eldsneytisnotkunar bíla Bláa Lónsins, losunar vegna úrgangs, flugferða starfsfólks, rútuferða starfsfólks og rútuferða gesta með Destination Blue Lagoon. Þá kolefnisjafnar Bláa Lónið einnig umhverfisspor gesta.
Árið 2019 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Bláa Lóninu 1.790 tonn CO2eq og munu Kolviður og Skógræktarfélag Íslands gróðursetja 17.900 tré til að kolefnisjafna þá losun. Framlagið var eitt það umfangsmesta hjá Kolvið það árið.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda
Í átt að hringrásarhagkerfi
Úrgangsmál
Samfélag án sóunar eru einkunnarorð Bláa Lónsins í umhverfismálum og markmið Auðlindagarðsins í nýtingu auðlindastrauma. Með rekstri Bláa Lónsins fylgja ýmsir hrakstraumar sem fyrirtækið vinnur jafnharðan í að flokka og aðgreina til endurnýtingar eða endurvinnslu. Aukin flokkun síðastliðin ár hefur skilað 37% endurvinnslu úrgangsefna og með frekari umbótaverkefnum árið 2020 stefnir fyrirtækið að enn hærra endurvinnsluhlutfalli eða yfir 45%. Jafnhliða því er mikilvægt að draga einnig úr magni úrgangsefna, en árið 2019 minnkaði magn úrgangsefna um 4% þrátt fyrir tilkomu nýrra rekstrareininga.
Pappír
Allur pappír sem fyrirtækið kaupir inn er PEFC eða FSC vottaður, þ.e. framleiðandinn stundar ábyrga nýtingu og ræktun skóga. Árið 2019 voru prentuð 30% færri A4 blöð samanborið við árið áður og 43% færri blöð á síðastliðnum þrem árum. Þennan árangur má rekja til margra umbóta innan fyrirtækisins eins og rafrænar undirskriftir og aukin notkun skýjalausna. Árið 2019 var kassakerfi og verklagi fyrirtækisins breytt til að bjóða gestum upp á valfrjálsa prentun kvittana. Það leiddi til 27% samdráttar í prentun kvittana, en breytingin tók gildi um mitt ár.
Prentun á A4 pappír
Fjöldi kassarúllla
Vottanir
ISO 9001: Alþjóðleg vottun á gæðakerfi fyrirtækja
Árið 2017 fékk Bláa Lónið Heilsuvörur ehf. (BLH) ISO 9001 gæðavottun frá BSI á Íslandi á rekstri sínum. Þau hafa haldið áfram vegferð sinni til stöðugra umbóta og árið 2019 var vottunin útvíkkuð til að ná einnig yfir framleiðslu á matarsalti og te.
Vakinn: Íslensk vottun fyrirtækja í ferðaþjónustu
Bláa Lónið hefur verið með vottun frá Vakanum síðan 2014 fyrir baðlónið, veitingarekstur Lava Restaurant og Café. Ferðamálastofa hefur séð um þessar vottanir frá upphafi en hafa nú úthlutað úttektum til viðurkenndra vottunaraðila. Árið 2019 var fyrirtækið vottað af BSI á Íslandi og vottunin var útvíkkuð með gullmerki í umhverfismálum, 5-stjörnu superior vottun á Retreat hóteli og 4-stjörnu superior vottun á Silica hóteli. Þessar vottanir staðfesta þá framúrskarandi þjónustu og aðstöðu sem Bláa Lónið býður upp á.
Bláfáni: Alþjóðleg vottun á öryggi og hreinlæti baðstranda
Bláa Lónið hefur viðhaldið Bláfánanum frá upphafi þegar Landvernd tók hann upp hér á landi árið 2002. Landvernd er hætt að sinna því hlutverki en alþjóðlegu bláfánasamtökin sáu um úttektir árið 2019, sem Bláa Lónið stóðst, rétt eins og fyrri ár. Útbúið var nýtt upplýsingaskilti á árinu og frekari verkefni tengd fræðslu um jarðsjóinn og nærliggjandi umhverfi eru í vinnslu. Árið 2020 tók vottunarstofan Tún ehf. yfir þessar vottanir á Íslandi.