Rannsóknir og þróun
„Gæðastýringarkerfi Bláa Lónsins fyrir framleiðslu á húðvörum og hráefnum er vottað samkvæmt ISO 9001.”
Áhersla á öflugt rannsóknarstarf hefur einkennt starfsemi Bláa Lónsins allt frá stofnun. Sem dæmi má nefna rannsóknir á lækningamætti jarðsjávarins á psoriasis, lífvirkni innihaldsefna jarðsjávarins og vistkerfisrannsóknir. Vísindamenn í þróunarsetri Bláa Lónsins vinna einnig markvisst að því að finna nýjar leiðir til að nýta jarðvarmann til frekari framleiðslu á húðvörum eða öðrum vörum fyrir gesti Bláa lónsins.
Síðan að fyrsta húðvaran kom á markað, Silica kísilmaskinn/Silica Mud Mask árið 1995 hafa fleiri bæst í hópinn en húðvörulínan telur nú yfir 30 vörurtegundir.
Í þróunarsetri Bláa Lónsins fer fram framleiðsla á lífvirkum efnum sem unnin eru úr jarðsjó Bláa Lónsins; kísli, söltum og þörungum. Þar er koldíoxíðríkt jarðvarmagas nýtt sem fóður fyrir þörunga, sem dregur úr kolefnisfótspori, en Bláa Lónið hefur verið leiðandi í þróun á slíkri nýtingu. Lögð er áhersla á umhverfisvæna og sjálfbæra framleiðslu og nýtingu. Stöðugt er unnið að því að draga úr sóun og leita nýrra umhverfisvænni leiða. Unnið er að því að minnka notkun umbúða og skipta út plastumbúðum fyrir ál og gler í húðvörulínu fyrirtækisins. Við þróun nýrra ferla eða vara er stuðst við COSMOS, alþjóðlegan staðal fyrir náttúruvörur, til að tryggja sem best að vörur Bláa Lónsins mæti síauknum kröfum markaðarins um umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir.
Farsælt samstarf við háskólasamfélagið
Bláa Lónið hefur ætíð átt farsælt samstarf við háskólasamfélagið á sviði rannsókna og þróunar. Nýjar rannsóknir Dr. Ásu Bryndísar Guðmundsdóttur lyfjafræðings hafa sýnt vísbendingar um að efni sem þörungar í Bláa Lóninu framleiða hafi áhrif á ónæmiskerfi manna og minnki bólgur psoriasissjúklinga. Væntingar eru til þess að áframhaldandi rannsóknir skili sér í þróun á nýjum meðferðarúrræðum fyrir psoriasissjúklinga
Fjöldi manns úr atvinnulífinu, sérfræðingar og háskólasamfélagið heimsækja þróunarsetrið ár hvert. Á árinu 2019 komu yfir fjörutíu hópar eða tæplega 400 manns í heimsókn en Bláa Lónið telur sig hafa hlutverki að gegna hvað varðar fræðslu um jarðvarmaauðlindina, fjölnýtingu hennar, vörur og starfsemi fyrirtækisins.
Lækningalind
Lækningastarfsemi er mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækisins þar sem hún er samofin sögu þess. Frá 1994 hefur Bláa Lónið boðið upp á meðferð við psoriasis sem byggir á einstökum lækningamætti jarðsjávar Bláa Lónsins.
Á síðasta ári veitti Bláa Lónið íslenskum psoriasissjúklingum meðferð þeim að kostnaðarlausu og án opinberrar greiðsluþátttöku rétt eins og undanfarin ár. Á árinu sóttu 180 einstaklingar meðferðir í Lækningalind Bláa Lónsins í samtals rúmlega 3.000 meðferðarskiptum. Meðalfjöldi meðferðarskipta íslenskra meðferðargesta var 19 skipti á hvern gest en erlendra um 4 skipti.
,,Á síðastliðnu ári notuðu gestir lónsins yfir 40 tonn af kísli.”
Nýjar húðvörur
Ný andlitsolía, Algae Bioactive Concentrate, kom á markað í nóvember 2019. Varan tilheyrir flokki húðvara fyrir andlit. Olían byggir á lífvirkni þörunga Bláa Lónsins en rannsóknir hafa sýnt að þeir vinna gegn öldrun húðar, örva nýmyndun á kollageni og verja húðina fyrir niðurbroti á kollageni sem á sér stað fyrir tilstuðlan sólarljóss. Bláa Lónið er með einkaleyfi á notkun þörunganna í snyrtivörur og lyf.