Innri áherslur
„Á árinu 2019 var aukin áhersla á stafræna þróun, innleiðingu nýrra grunnkerfa og bestun í rekstri ásamt markaðssókn á húðvörum Bláa Lónsins.“
Eftir mikla aukningu í fjölda gesta síðustu ár og vöxt í uppbyggingu m.a. hvað varðar Retreat, Retreat Spa og veitingastaðinn Moss snéru áherslur Bláa Lónsins á árinu 2019 fremur að innri uppbyggingu og undirbúningi áframhaldandi markaðssóknar. Í því skyni var nýtt stjórnskipulag kynnt á haustmánuðum. Því var ætlað að skerpa betur á innri áherslum félagsins hvað varðar stafræna þróun, innleiðingu grunnkerfa og bestun í rekstri sem og ytri áherslum sem snúa fyrst og fremst að undirbúningi markaðssóknar húðvara Bláa Lónsins á erlendum mörkuðum. Þá heyrir nú mannauðssvið félagsins beint undir forstjóra.
Aukin markaðssókn með húðvörur Bláa Lónsins á erlenda markaði.
Á árinu 2019 hófst undirbúningur að aukinni markaðssókn Bláa Lónsins á erlendum húðvörumarkaði. Allt frá stofnun fyrirtækisins hefur verið lögð mikil áhersla á öflugt rannsóknarstarf m.a. á lífvirkni innihaldsefna jarðsjávarins og horft til nýtingar með umhverfisvænum og sjálfbærum hætti. Framleiðsla á lífvirkum efnum úr jarðsjónum, þ.e. kísill, sölt og þörungar, hefur lagt grunninn að húðvörum Bláa Lónsins sem hafa þegar hlotið alþjóðlegar viðurkenningar og athygli enda virkni þeirra einstök í öllum samanburði.
Á árinu 2019 var unnið náið með alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Alkemy að undirbúningi markaðssóknarinnar. Fyrirtækið býr yfir mikilli stafrænni markaðs- og söluþekkingu og hefur áralanga alþjóðlega reynslu á þessu sviði.
Stefnt er að því að hefja formlega öfluga markaðssókn á seinni hluta ársins 2020. Bláa Lónið mun leiða þá vegferð ásamt Alkemy. Horft verður til breyttra áherslna í vöruframboði sem miðar að hverjum markaði fyrir sig.
Áhersla á stafræna þróun
Með aukinni áherslu á stafræna þróun innan Bláa Lónsins er sérstaklega horft til þess að auka skilvirkni, koma til móts við breyttar þarfir og hegðun viðskiptavina ásamt því að virkja ný tækifæri með aðstoð stafrænna lausna. Þetta er umbreytingarferli þar sem nýjar nálganir eru innleiddar í starfsemi félagsins með aðstoð stafrænna lausna og/eða starfsháttum þess breytt með það að markmiði að auka virði hagsmunaaðila Bláa Lónsins, hvort sem horft er til aukinnar skilvirkni, ánægju gesta eða tekjumöguleika. Innleiðingin kallar á virka þátttöku starfsfólks og krefst breytingar bæði hvað varðar menningu og verklag innan fyrirtækisins.
Þessi vegferð Bláa Lónsins hófst formlega haustið 2018 í samstarfi við samstarfsaðila okkar, hönnunarfyrirtækið Design Group Italia. Búin voru til þverfagleg teymi sem unnu í þremur mismunandi straumum og greindu starfsemi og rekstur Bláa Lónsins með 360° aðferðafræði. Áherslan frá síðasta hausti hefur verið á frekari útfærslu og vinnu tengda þeim verkefnum sem metin voru í forgangi eftir þá greiningarvinnu sem hafði farið fram veturinn á undan.
Innleiðing nýrra grunnkerfa
Á árinu 2019 var lögð áhersla á að tryggja áfram stöðugt rekstrarumhverfi upplýsingatæknikerfa Bláa Lónsins og fjárhagskerfi félagsins var uppfært úr Nav 2009 í Nav 2018. Nú á vormánuðum var síðan Navision uppfært í Business Central.
Síðastliðið haust var tekin ákvörðun um framtíðarlausn fyrir viðskiptahugbúnað félagsins en stefnt er að því að stærstur hluti hans verði að fullu innleiddur haustið 2020. Eftir skoðun á markaðnum og greiningu á þörfum félagsins var ákveðið að ganga til samninga við LS Retail um kaup á LS Central lausninni. LS Central er hugbúnaður sem samanstendur af nokkrum sértækum lausnum sem allar eru samþættar í einni heildarlausn, þ.e. kassakerfi (LS Retail), bókunarkerfi (LS Activity), veitingahúsakerfi (LS Hospitality) og hótelkerfi (LS Hotels).
Unnið hefur verið að uppbyggingu á gagnahýsingu undanfarin misseri og mun sú vinna halda áfram á árinu 2020. Markmiðið er að auka og hraða aðgengi að gögnum fyrir stjórnendur og starfsfólk og þannig skapa gagnadrifið rekstrarumhverfi.
Bestun í rekstri
Eftir mikið uppbyggingartímabil hjá Bláa Lóninu var lögð stóraukin áhersla á skilvirkni og hagkvæmni í rekstri á árinu 2019. Áhersla var lögð á aukið samstarf milli rekstrareininga, samnýtingu starfsfólks, lækkun launakostnaðar, bætta ferla og einföldun skipulags. Þá var aukin áhersla lögð á viðbótarsölu á þjónustu og vörum Bláa Lónsins á öllum upplifunarsvæðum þar sem einingar settu sér metnaðarfull sölumarkmið.
Launakostnaður vegur þungt í rekstri Bláa Lónsins og var því sérstök áhersla lögð á að draga úr stöðugildafjölda, besta vaktafyrirkomulag og mönnun í öllum rekstrareiningum, auka vellíðan starfsmanna og minnka fjarveru.
Ýmir verkferlar voru endurskoðaðir og straumlínulagaðir og stjórnskipulag rekstrareininga einfaldað. Þá voru skilgreind lykilverkefni sem miðuðu að því að auka enn frekar ánægju og upplifun gesta. Hluti af þeirri vegferð er aukin sjálfvirknivæðing og sjálfsafgreiðsla sem mun byggja á þeim tæknilegu- og stafrænu innviðum sem Bláa Lónið hefur fjárfest í á undanförnum misserum.
Aðkoma Bláa Lónsins að ferðaþjónustu
Bláa Lónið er virkur þátttakandi í hinum ýmsu samvinnu- og umbótaverkefnum sem stuðla að uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu, meðal annars á sviði sölu- og kynningarmála, umhverfismála og nýsköpunar. Með þátttöku sinni í þessum verkefnum leggur félagið sitt á vogarskálarnar hvað varðar aukna verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu.