Hagræn áhrif

Beint efnahagslegt framlag Bláa Lónsins nam 109% af veltu þess á síðasta ári.

Hagræn áhrif Bláa Lónsins eru mikil hvort sem litið er til þjóðarbúsins almennt eða nærsamfélagsins sérstaklega. Beint efnahagslegt framlag fyrirtækisins nam rúmlega heildarveltu þess í fyrra. Hjá félaginu störfuðu 809 manns í árslok en launahlutfallið nam 42% á síðasta ári.

Bláa Lónið leggur mikið upp úr því að eiga viðskipti við nærsamfélagið og kaupir t.a.m. nær alla ferskvöru af birgjum í nágrenninu. Þá leggur Bláa Lónið áherslu á að styðja við fjölbreytt verkefni er snúa að íþrótta- og æskulýðsmálum, menningar-, heilbrigðis og umhverfismálum almennt. Árið í fyrra var þar engin undantekning.

Virðisaukandi

Virðisauki samfélagsins af rekstri Bláa Lónsins er afar mikill. Í heildina nam efnahagslegt framlag félagsins 109% af veltu þess á síðasta ári. Launahlutfall nam 42% en þar af námu skattar og gjöld 15%.

Þá stækkaði skattspor félagsins um 34% á milli áranna 2018 og 2019 en á síðasta ári nam það samtals 5,8 milljörðum.

Bein efnahagsleg verðmæti í milljónum króna* 2019
TEKJUR 17.142
REKSTRARKOSTNAÐUR** 5.311
LAUN OG LAUNAT. GJÖLD 7.122
ARÐGREIÐSLUR TIL HLUTHAFA 4.119
GREIDDUR VIRÐISAUKASKATTUR 1.266
TEKJUSKATTUR 791
SAMTALS EFNAHAGSLEGT FRAMLAG 18.610
EFNAHAGSLEGUR ÁVINNINGUR -1.468
HLUTFALL EFNAHAGSLEGS FRAMLAGS AF TEKJUM 109%

* Meðalgengi EUR/ISK = 137,3
** Án afskrifta

Sterkara samfélag

Bláa Lónið styður við samfélagið með því að styrkja mörg fjölbreytt verkefni sem snúa meðal annars að íþrótta- og æskulýðsmálum í heimabyggð, sem og menningar-, heilbrigðis- og umhverfismálum almennt. Fyrirtækið hefur til margra ára boðið Íslendingum upp á húðmeðferðir í lækningaskyni, meðferðargestum og ríkinu að kostnaðarlausu.

Meðal þeirra sem Bláa Lónið styrkti á síðasta ári voru Krabbameinsfélagið með sölu varasalva í bleikum október, Íþróttasamband fatlaðra, Íþróttafélög á Reykjanesi, Landsmót hestamanna, Hjólreiðafélag Reykjavíkur, Forskot og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnumaður í golfi. Bláa Lónið styrkti einnig við Sólheima, slökkvi- og björgunaraðila á Reykjanesi, Reykjanes Geopark og Bláa Herinn svo eitthvað sé nefnt.

Á árinu 2019 veitti Bláa Lónið um 159 milljónir í styrki til samfélagsins og af þeirri upphæð rann 23% til nærsamfélagsins á Reykjanesi.

Nærsamfélagið = Reykjanesið: Grindavík, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Vogar
Fjærsamfélagið = Allir aðrir sem búsettir eru annars staðar en á Reykjanesi

Hagsmunir samfélagsins

Bláa Lónið vex með samfélaginu og samfélagið með fyrirtækinu.

Jákvæð áhrif af rekstri Bláa Lónsins fara víða en góð rekstrarafkoma skilar sér ávallt til samfélagsins í heild sinni en ekki hvað síst til nærsamfélagsins. Bláa Lónið verslaði til að mynda vörur og þjónustu af birgjum fyrir um 4 milljarða króna á síðasta ári. Þar af áttu 22% viðskiptanna sér stað innan nærsamfélagsins og helmingur þeirra voru við fyrirtæki í Grindavík.

Þjónustumiðstöðin Reykjanes ehf. stefnir að sjálfbærni

Í framhaldi af undirritun samstarfssamnings milli Bláa Lónsins og Reykjanes Unesco Global Geopark um aukið samstarf Jarðvangsins og sveitarfélaganna fjögurra sem eru innan hans um uppbyggingu á svæðinu, var að frumkvæði Bláa Lónsins hafist handa við að bæta aðstöðu við Reykjanesvita. Það er gert undir merkjum félags í meirihlutaeigu Bláa Lónsins; Þjónustumiðstöðin Reykjanes ehf.

Á meðan hugað er að varanlegri aðstöðu þjónustumiðstöðvar, var á árinu komið fyrir salernisaðstöðu í húsi við vitann sem er í umsjá Hollvinasamtaka Reykjanesvita. Reykjanesbær tengdi vatn að húsinu og Vegagerðin tók að sér að lagfæra Reykjanesvitaveginn. Starfsmaður á vegum Bláa Lónsins gætir einnig að umhverfisþáttum á svæðinu í góðu samstarfi við stjórnendur Jarðvangsins. Allt þetta samstarf lofar góðu.

Nú er unnið að nánari staðsetningu fyrirhugaðs þjónustuhúss, þarfagreiningu og grunnteikningum. Þá er unnið að betri merkingum svæðisins í samræmi við samstarfssamninginn.

Það er ætlan Bláa Lónsins að verkefni þetta verði sjálfbært þannig að framtíðararður af starfseminni verði að fullu nýttur til verndar og viðhalds umhverfis Reykjanes. Markmiðið er að vinna að bestu aðferðum til uppbyggingar í sátt við náttúru, bæta þekkingu, viðhorf og verndarstöðu jarðminja á svæðunum, hvetja til nýjunga í náttúrutengdri sköpun og draga fram og viðhalda menningararfleifð svæðanna.

Á árinu 2019 fór fram ítarleg úttekt á vegum Unesco vegna áframhaldandi samþykktar á leyfum Reykjanes Unesco Global Geopark til að bera nafn undir merkjum Unesco. Fulltrúar Unesco áttu m.a. fund með forsvarsmönnum Bláa Lónsins, þar sem samstarfssamningur Bláa Lónsins og Reykjanes Unesco Global Geopark var til umræðu. Nú í byrjun árs 2020 var tilkynnt að Reykjanes Unesco Global Geopark hafi fengið fullt hús stiga í umræddri úttekt og ber því nafn með rentu.

Start typing and press Enter to search