Mannauður

 „Saman myndar starfsfólk Bláa Lónsins öfluga heild sem á sér sameiginlegt loforð – að skapa ógleymanlegar minningar, bæði fyrir hvort annað sem og fyrir gesti Bláa Lónsins.“

Fáir vinnustaði á Íslandi bjóða uppá jafn mikla breidd af störfum og Bláa Lónið. Fjölbreytnina má rekja til þess að Bláa Lónið er með víðtæka starfsemi á ólíkum sviðum sem tengjast þó innbyrðis.

Starfsfólk Bláa Lónsins er verðmætasta auðlind fyrirtækisins en mannauðurinn er undirstaðan að einstakri upplifun gesta og framlag þeirra tryggir áframhaldandi velgengni fyrirtækisins. Starfsfólk Bláa Lónsins kemur frá 40 þjóðríkjum og er það dýrmætt fyrir fyrirtækið að búa yfir slíkri fjölmenningu og geta þannig með öflugum hætti tekið á móti Íslendingum og ferðamönnum frá öllum heimshornum með ólíkar óskir og þarfir.

Allir starfsmenn fyrirtækisins líta á sig sem ógleymanlega gestgjafa og kappkosta við að veita öllum gestum Bláa Lónsins framúrskarandi þjónustu.

Starfsfólk – 2019

0
Fjöldi starfsfólks
0
Þjóðerni
0
Meðalaldur starfsfólks

Nærsamfélagið = Reykjanesið: Grindavík, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Vogar
Fjærsamfélagið = Allir aðrir sem búsettir eru annars staðar en á Reykjanesi

Starfsmannavelta
Konur 15,1%
Karlar 10,4%
Erlendir 10%
Íslenskir 15,6%
Nærsamfélagið* 10,3%
Aldur < 30 14,9%
Aldur 30-50 9,4%
Aldur > 50 1,3%

* Reykjanesið: Grindavík, Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Vogar

Fæðingarorlof Aftur til starfa
Konur 40 73%
Karlar 19 100%

Starfsfólk Bláa Lónsins nýtur ýmissa fríðinda sem styðja við heilsu og vellíðan þeirra, eins og kort í líkamsrækt, gistingu á vel völdum hótelum og gjafakort vegna ferða erlendis. Einnig fær starfsfólk ríkulegan afslátt af margs konar vörum, þjónustu og afþreyingu bæði hjá Bláa Lóninu sem og hjá samstarfsaðilum þess.

Eitt af gildum Bláa Lónsins er að gleðja (We bring joy) og mannauðsdeild og starfsmannafélag fyrirtækisins gera það svo sannarlega með skemmtilegum uppákomum, fjölskylduskemmtunum, sögulegum árshátíðum og hópeflingu innan deilda.

Gildi Bláa Lónsins

Gildi Bláa Lónsins eru mjög sterk í menningu fyrirtækisins. Gildin snúa bæði að starfsfólki Bláa Lónsins sem og gestum þess.

UMHYGGJA:
Vellíðan og öryggi gesta skiptir okkur öllu máli. Okkur er annt um starfsfólkið og við kappkostum að skapa öruggan og heilbrigðan vinnustað.

GLEÐI:
Við sköpum gleði og hámörkum upplifun gesta okkar og líka hvers annars. Við skemmtum okkur saman í vinnunni og utan hennar.

VIRÐING:
Við berum virðingu fyrir umhverfi og einstakri náttúru í kringum Bláa Lónið. Við berum virðingu fyrir hverju öðru og fyrir menningarlegum bakgrunni gesta og starfsfólks.

OKKAR LOFORÐ:
Hvern einasta dag sköpum við minningar sem gestir okkar frá öllum heimshornum taka með sér heim. Saman sköpum við ógleymanlegar minningar í leik og starfi.

Fræðsla og þjálfun

Þjálfun og fræðsla starfsfólks er lykilþáttur í velgengni Bláa Lónsins. Skýr fræðsluáætlun gefur öllu starfsfólki jöfn tækifæri til að bæta hæfni sína og auka þekkingu í starfi.

Árið 2019 var sett á laggirnar Bláa Lóns Akademían. Bláa Lóns Akademían nær yfir alla fræðslu sem Bláa Lónið veitir starfsfólki sínu. Boðið er upp á ýmis námskeið sem tengjast starfseminni og hefur Akademían það að markmiði að efla starfsfólk bæði faglega og persónulega. Gildi Bláa Lónsins eru umhyggja, virðing og gleði en þau ásamt loforði okkar um að skapa minningar eru hornsteinn menningar Bláa Lónsins og endurspegla þau alla fræðslu sem Akademían býður upp á.

Fyrirtækið leitar í öflugan þekkingarbrunn starfsfólks við framleiðslu og kennslu námskeiða en leitar í þekkingu utan Bláa Lónsins ef þurfa þykir og sú fræðsla er þá aðlöguð að þörfum fyrirtækisins. Í Bláa Lóns Akademíunni er lögð áhersla á þjálfun frá fyrsta degi en meðal þess sem farið er yfir er nýliðafræðsla, vöruþekking, heilsa og öryggi, menningarlæsi, að skapa ógleymanlegar minningar með gestum, söluþjálfun og að veita framúrskarandi þjónustu. Leiðtogum er einnig veittur stuðningur með markþjálfun og ráðgjöf.

Bláa Lónið leggur mikla áherslu á starfsþróun innan fyrirtækisins og leitar stöðugt nýrra leiða til að ná enn betri árangri í að efla þekkingu og hæfni starfsfólks og byggja þannig upp enn öflugri liðsheild. Árið 2019 færðust 60 starfsmenn til í starfi innan Bláa Lónsins, en um var að ræða bæði þróun í starfi þvert á fyrirtækið og starfsþróun þar sem starfsfólk fékk aukna ábyrgð í starfi.

Árið 2019 var innleitt nýtt rafrænt fræðslukerfi, Eloomi, inn í Bláa Lóns Akademíunni. Kerfið hefur greitt leið fyrir frekari fræðslu og menntun starfsfólks en þar er boðið upp á námskeið sem bæði eru skylda og val fyrir starfsfólk. Með þessu kerfi er hægt að nálgast nýtt starfsfólk fyrr hvað varðar nýliðafræðslu, kynningu á fyrirtækinu og mikilvægar upplýsingar er varðar fyrirtækið. Rafrænt fræðslukerfi gefur okkur einnig tækifæri til að efla núverandi fræðslu og auka enn frekar framboð og aðgengi að fræðslu.

Samhliða Bláa Lóns Akademíunni er starfsfólk hvatt til að leita sí- og endurmenntunar út fyrir Bláa Lónið til að efla færni sína enn frekar í starfi og leik.

Bláa Lóns Akademía
Samtals KK KVK
Fjöldi starfsfólks 754 264 490
Klukkustundir 2.829 1.301 1.528
Fjöldi kennslustunda á hvern starfsmann 3,8 4,9 2,7
Endurmenntun
Samtals KK KVK
Fjöldi starfsfólks 82 13 69
Klukkustundir 712 74 638
Fjöldi kennslustunda á hvern starfsmann 8,7 5,7 9,2

Viðeigandi þekking og rétt þjálfun í kjölfar slysa getur bjargað mannslífum. Skyndihjálparnámskeið eru því í boði fyrir allt starfsfólk Bláa Lónsins og ítarlegri öryggisnámskeið og sundpróf fyrir þá sem starfa í öryggisgæslu.

Vinnustaðamat

87%

Við mælum með Bláa Lóninu sem vinnustað

Framkvæmt var vinnustaðamat í byrjun árs 2019 til að fá sem besta mynd af hvernig starfsfólk upplifir Bláa Lónið sem vinnustað. Þeir þættir sem voru mældir voru meðal annars starfsánægja, starfsandi, helgun, samskipti innan fyrirtækisins, samþætting vinnu- og fjölskyldulífs og vinnuálag. Niðurstaða mælinga var ánægjuleg en t.a.m. er rúmlega 84% starfsfólks ánægt í starfi hjá Bláa Lóninu og rúmlega 87% starfsfólks mælir með Bláa Lóninu sem vinnustað. Heilt yfir þótti starfsfólki vinnuálag nokkuð hæfilegt, sem var ánægjulegt að sjá. Niðurstöður úr könnunum sem þessum eru ávallt nýttar til að gera enn betur og taka á þeim þáttum sem þörf er á.

Heilsa og öryggismál

Líkamleg heilsa og andlegt jafnvægi er grunnurinn að vellíðan í leik og starfi. Starfsfólki býðst gott tækifæri til þess að stunda reglulega líkamsrækt og efla andlega heilsu. Auk þess er boðið upp á reglulegar heilsufarsmælingar og bólusetningar.

Góðar og heilsusamlegar vinnuaðstæður eru undirstaðan að ánægðu starfsfólki sem eykur ánægju gesta.

Öll vinnusvæði eru hönnuð til að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks og stöðugt er leitað leiða til að auka þægindi. Matsalur starfsfólks er sérstaklega hannaður til að skapa þægilegt og afslappandi umhverfi með fjölbreyttu úrvali af heilsusamlegu fæði.

Innan Bláa Lónsins er rekin öflug öryggisvaktstöð sem sinnir eftirliti með öllu athafnasvæði fyrirtækisins og tryggir öryggi gesta, starfsfólks, verktaka, eigna og bygginga allan sólarhringinn alla daga ársins. Þar að auki eru vaktir og gæslustarfsfólk sem vakta baðlónið og baðlón Retreat.

Öryggi og velferð gesta og starfsfólks Bláa Lónsins eru ávallt í forgrunni í allri starfsemi fyrirtækisins. Fyrirbyggjandi aðgerðir eru undirstaðan að því og má þar nefna heilsufarsmælingar og bólusetningar starfsfólks, reglulegar mælingar í lóninu, hönnun og skipulag upplifunarsvæða og öryggismerkingar.

Allt upplifunarferli gesta og störf starfsfólks eru áhættumetin með tilliti til öryggis, heilsu og umhverfis og viðeigandi stýringar innleiddar til að lágmarka slysahættu. Stýringarnar skila sér í hönnun og skipulagi upplifunarsvæða, þjálfun starfsfólks, öryggisreglum og upplýsingagjöf til gesta.

Helstu orsök slysa 2019 mátti rekja til fallhættu vegna hálla/blautra yfirborða. Fyrirtækið hefur orsakagreint þessi atvik, innleitt stýringar og farið í umbótaverkefni til að draga úr þessari áhættu og koma í veg fyrir að atvikin endurtaki sig. Á meðal verkefna 2020 má nefna fjölgun gúmmímotta, meðhöndlun gólfefna, þurrkun svæða og bætta upplýsingagjöf.

Fyrirtækið hefur skilgreint, skráð og æft neyðarviðbrögð við helstu áhættum í rekstri. Stigveldi áhættustýringa er notað til að stýra og lágmarka áhættustig í rekstri eins og hægt er.

Til staðar eru kerfi til að skrá og bregðast við atvikum og eftirfylgni þeirra, viðhaldskerfi og tæknikerfi til að bregðast við bilunum og öðrum uppákomum allan sólarhringinn. Starfsfólk hefur einnig aðgang að trúnaðarlækni og sálfræðingi ef þörf er á.

Meira um öryggismál og gæslu innan Bláa Lónsins

Fjölbreytileiki og jafnræði

Bláa Lónið vinnur hart að því að tryggja jafnrétti á meðal starfsfólks og hefur markað sér jafnréttisáætlun með það að markmiði að starfsfólk sé metið á eigin forsendum óháð kyni, kynþætti eða öðrum órökstuddum viðmiðum. Konur jafnt sem karlar hafa aðgang að lausum störfum hjá fyrirtækinu og hafa jafna möguleika á stjórnunarstörfum.

Aldur

Kynjahlutfall

Bláa Lónið hlaut Jafnlaunavottun, samkvæmt jafnlaunastaðli ÍST 85, árið 2018.  Það er fyrirtækinu afar mikilvægt að samræmi sé þvert á svið og deildir þegar kemur að launa- og kjaraákvörðunum og að konur og karlar fái sömu laun, kjör og réttindi fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Bláa Lónið fór í viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfinu í lok árs 2019 og stóðst hana með mikilli prýði. Kynbundinn launamunur mældist undir vikmörkum eða 1,47%. Árið 2019 voru útreikningarnir byggðir á færri fylgibreytum en 2018 til að gefa áreiðanlegri samanburð á launamuni kynjanna innan fyrirtækisins.

2018 2019
Launamunur kynjanna 0,76% 1,47%
Skýringarhlutfall 95% 94,2%

Start typing and press Enter to search