Helgi Magnússon

„Árið 2019 gekk vel í rekstri Bláa Lónsins hf. Félagið hefur notið mikillar velgengni samfleytt frá árinu 2011.”

Ágætu hluthafar.

Árið 2019 gekk vel í rekstri Bláa Lónsins hf. Félagið hefur notið mikillar velgengni samfleytt frá árinu 2011. Í níu ár í röð hefur hagnaður af rekstri félagsins verið góður og vaxandi enda hafa veltuumsvif fyrirtækisins aukist jafnt og þétt.

Í fyrra fækkaði gestum í fyrsta skipti í áratug. Fækkunin nam 20% en þrátt fyrir það var fjöldi gesta yfir einni milljón. Ástæður fækkunar má rekja til breyttra aðstæðna í umhverfi ferðaþjónustunnar á Íslandi í kjölfar þess að flugfélagið WOW hætti starfsemi og varð gjaldþrota. Það hafði talsverða truflun í för með sér. Auk þess varð röskun á flugi Icelandair vegna Boeing MAX 8 flugvéla sem félagið hafði fest kaup á og voru kyrrsettar hjá framleiðandanum.

Þrátt fyrir fækkun gesta Bláa Lónsins vegna umræddra truflana gekk reksturinn vel. Stjórnendur félagsins brugðust við breyttum aðstæðum með réttum hætti og tryggðu þannig áframhaldandi arðsaman og farsælan rekstur félagsins.

Rekstrartekjur námu alls 125 milljónum evra, samanborið við 123 milljónir árið á undan. EBITDA hagnaður var 34,3 milljónir evra í stað 39,6 milljóna árið á undan. Hagnaður eftir tekjuskatt var 22 milljónir evra í stað rúmlega 26 milljóna árið á undan. Tekjuskattur sem greiðist til ríkissjóðs á árinu 2020 vegna rekstrar ársins 2019 nemur 5,8 milljónum evra sem jafngildir um 900 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi.

Efnahagsreikningur félagsins í árslok 2019 lítur einnig vel út þar sem bókfærð eiginfjárstaða er 43% af efnahag þess.

„Á þessari stundu getum við ekki annað en vonað að vel takist til við breyttar aðstæður og að fyrirtækið komist farsællega á skrið að nýju þó öllum sé ljóst að það geti tekið nokkurn tíma.”

Þegar árið 2020 rann upp benti ekkert til annars en að Bláa Lónið gæti vænst þess að framhald yrði á góðum og arðsömum rekstri. Í upphafi árs bárust svo fréttir af jarðhræringum á Reykjanesi í námunda við Grindavík og fjallið Þorbjörn skammt frá Bláa Lóninu. Slíkt veldur ávallt ugg. Sem betur fer kom ekki til eldgoss. En snemma árs tóku að berast ógnvænlegar fréttir af veirusýkingu sem átti uppruna sinn í Kína og hefur orðið að heimsfaraldri eins og allir þekkja. Afleiðingarnar eru þær að landamærum ríkja hefur verið lokað um lengri eða skemmri tíma þannig að farþegaflug um allan heim hefur verið í algjöru lágmarki og ferðaþjónusta liggur að mestu leyti niðri um þessar mundir. Nú í síðari hluta júnímánaðar eru ferðalög þó að hefjast að nýju og fara hægt af stað.

Þegar þessi faraldur dundi yfir var ekki um annað að ræða en að gera hlé á rekstri og loka nær allri starfsemi fyrirtækisins og segja upp starfsfólki. Opnað var að nýju þann 19. júní. Það er mikið fagnaðarefni þó ljóst sé að starfsemin verður mun minni til að byrja með en verið hefur á undanförnum árum. Á þessari stundu getum við ekki annað en vonað að vel takist til við breyttar aðstæður og að fyrirtækið komist farsællega á skrið að nýju þó öllum sé ljóst að það geti tekið nokkurn tíma.

Eins og kunnugt er af fréttum hefur heimsfaraldurinn þegar valdið miklum og neikvæðum áhrifum á Íslandi eins og víðast um heiminn. Fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu og tengdum greinum hefur lent í miklum vandræðum. Þá hefur atvinnuástandið versnað til mikilla muna. Horfur á vinnumarkaði og í efnahagsmálum almennt eru því miður slæmar þegar reynt er að rýna í næstu framtíð. Ógjörningur er að spá um horfur á Íslandi næstu mánuði og misseri enda óvissan enn gríðarlega mikil.

Þetta ástand mun hafa mikil áhrif á rekstur Bláa Lónsins á árinu 2020, en við sjáum fram á að fyrirtækið verði rekið með tapi í stað samfellds hagnaðarrekstrar síðastliðinn áratug.

„Sem betur fer hefur verið mörkuð sú stefna hjá félaginu að mikilvægt sé að undirbúa fyrirtækið eins og kostur er fyrir óvænta atburði. Um þetta hefur verið rætt á aðalfundum undanfarin ár.”

Við þessar aðstæður er meginviðfangsefni stjórnar Bláa Lónsins og daglegra stjórnenda fyrst og fremst það að leiða fyrirtækið í gegnum þessar óvæntu og ótrúlegu aðstæður sem enginn gat spáð fyrir um. Við höfum einbeitt okkur að því og munum einbeita okkur þannig áfram. Sem betur fer hefur verið mörkuð sú stefna hjá félaginu að mikilvægt sé að undirbúa fyrirtækið eins og kostur er fyrir óvænta atburði. Um þetta hefur verið rætt á aðalfundum undanfarin ár. Við höfum þá einkum fjallað um þá ógn sem gæti steðjað að rekstrinum vegna náttúruhamfara eða hryðjuverka sem gætu valdið mikilli tímabundinni truflun á rekstri.

Þegar veirufaraldur sem þessi dynur síðan yfir eru áhrifin svipuð og fyrirtækið hefur reynt að búa sig undir. Við munum því gæta hagsmuna fyrirtækisins og þar með allra hluthafa í samræmi við þann undirbúning sem farið hefur fram vegna hugsanlegra óvæntra atburða. Vonandi tekst það vel.

Fyrsta skref stjórnenda Bláa Lónsins í umræddri varnarbaráttu var að hætta við að greiða hluthöfum arð á árinu 2020 vegna hagnaðarrekstrar ársins 2019. Hluthafar félagsins veita þannig félaginu styrk og stuðning eins og þeim er unnt. Það þykir okkur sjálfsagt og eðlilegt við ríkjandi aðstæður. Ég er ekki var við annað en að um það ríki alger samstaða eins og reyndar um aðrar aðgerðir sem gripið hefur verið til í þeim tilgangi að stýra Bláa Lóninu heilu í gegnum þessar erfiðu aðstæður.

Ég vil að lokum þakka öllu starfsfólki, stjórn félagsins og daglegum stjórnendum fyrir ánægjulegt samstarf og farsælt starf fyrir félagið á liðnu starfsári. Við munum öll leggja okkar af mörkum til að koma félaginu heilu og öflugu á sinn stað að nýju – það er í fremstu röð fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu.

Start typing and press Enter to search