Baðstaðir

,,Jarðsjórinn í Bláa Lóninu á engan sinn líka en hann er ríkur af steinefnum, kísli og þörungum.”

Sérstaða Bláa Lónsins er jarðsjórinn. Hann kemur af 2.000 metra dýpi úr iðrum jarðar. Á Reykjanesskaga er mjög gljúpt hraun og síast sjór og ferskvatn inn í jarðlögin.  Jarðsjórinn sem myndast er að tveimur þriðju hlutum saltvatn og að einum þriðja hluta ferskvatn. Vegna jarðhita á svæðinu verða efnahvörf sem veldur því að jarðsjórinn sem myndast er ríkur af steinefnum, kísli og þörungum. Þessi sérstaða jarðsjávarins myndar þannig grunninn að öllum þeim fjölbreyttu húðvörum sem Bláa Lónið framleiðir og er um leið grunnurinn að lækningamætti lónsins.

Bláa Lónið

Á árinu 2019 tók Bláa Lónið á móti um 968 þúsund gestum. Um var að ræða fækkun á milli ára sem rekja má til fækkunar ferðamanna. Meðaltekjur á hvern gest hækkuðu þó nokkuð og var áhersla lögð á ýmsar nýjungar og þróun í upplifun gesta. Framboð á nuddi og meðferðum var aukið og svokallað slökunarflot var kynnt til sögunnar. Þá var gestum boðið upp á svokallaðan Bláa Lóns sögutíma þar sem gestgjafar segja gestum frá sögu lónsins og ýmsu sem það hefur upp á að bjóða. Sérstök áhersla var lögð á sölumiðaða þjónustu í allri framlínu þar sem kynntar eru hinar ólíku vörur og þjónustuþættir sem í boði eru í Bláa Lóninu.

Ýmis úrbótaverkefni voru innleidd sem miðuðu að því að bæta upplifun gesta, auka skilvirkni og draga úr umhverfisáhrifum.

0
Fjöldi baðgesta 2019

Retreat Spa

Retreat Spa er einstakt upplifunarsvæði sem á sér engan líka á Íslandi. Svæðið er ætlað bæði hótel- og daggestum. Um 20 þúsund daggestir sóttu Retreat Spa á árinu 2019 auk hótelgesta og má því gera ráð fyrir að Retreat Spa hafi samtals tekið á móti um 43 þúsund gestum á árinu.

Daggestir fá aðgang að einkaklefa og er öll þjónusta og umgjörð afar fáguð og áhersla lögð á næði gesta með því að tengja saman einstakt umhverfi og eiginleika jarðsjávarins. Gestir geta notið dvalarinnar í fjölbreyttum slökunarrýmum, gufuböðum og í sérstöku baðlóni sem er eingöngu ætlað gestum á Retreat Spa og Retreat hótel. Boðið er upp á fjölbreyttar meðferðir í Retreat Spa s.s. nudd, snyrtimeðferðir og slökunarflot. Þá komast gestir í nána snertingu við grunninnihaldsefni Bláa Lónsins á svokölluðu Blue Lagoon Ritual rými.

0
Fjöldi baðgesta 2019

Vissir þú að

Sírennsli er í gegnum lónið og endurnýjast allt vatnið á 40 klukkustundum

Ánægja gesta

Bláa Lónið stendur fyrir reglulegum mælingum á ánægju gesta, meðal annars með því að mæla svokallað NPS-skor. Mælingin er vísbending um ánægju gesta lónsins og hversu líklegir þeir eru til að mæla með því við vini og fjölskyldu. Meðalskorið á árinu 2019 nam 56,2 sem þykir afar gott í alþjóðlegum samanburði. Það helst auk þess í hendur við fyrri ár, sem er afar jákvætt.

Óhætt er að segja að gestir hafi verið ánægðir með upplifunina á Retreat Spa en meðal NPS-skor Retreat Spa var 84 yfir árið 2019, sem er einstakur árangur.

Bláa Lónið

Retreat Spa

Start typing and press Enter to search