Samfélagsábyrgð
„Við ástundum fagleg vinnubrögð og stuðlum að góðum samskiptum við alla hagsmunaaðila fyrirtækisins.“
Bláa Lónið hefur allt frá stofnun lagt áherslu á samfélagsábyrgð og hefur nálgun Bláa Lónsins að málaflokknum þróast í takt við þróun fyrirtækisins og samfélagsins. Samfélagsábyrgð Bláa Lónsins er mikil og víðtæk. Í henni felst m.a. ábyrgð gagnvart náttúru, samfélagi og sjálfbærni.
Samfélagsskýrsla þessi lýsir frammistöðu og umhverfislegum áhrifum frá rekstri fyrirtækisins árið 2019 í samræmi við sjálfbærniviðmið Global Reporting Initiative (GRI). Er þetta í fyrsta sinn sem málaflokkurinn er settur upp með þessum hætti í ársskýrslu Bláa Lónsins. Uppsetning skýrslunnar var byggð á áhersluatriðum Bláa Lónsins og hagsmunaaðila þess en stefnt er að því að endurmeta þessi áhersluatriði með hagsmunaaðilum og setja inn fleiri árangursvísa fyrir CSR skýrslu ársins 2020.
Covid-19
Ísland ásamt allri heimsbyggðinni hefur þurft að bregðast við heimsfaraldrinum COVID-19. Í ljósi aðstæðna hefur Bláa Lónið þurft að grípa til umfangsmikilla aðgerða til að aðlaga starfsemi félagsins að gjörbreyttu rekstrarumhverfi en félagið þurfti að loka öllum rekstrareiningum sínum í tæpa þrjá mánuði vegna faraldursins eða frá 23. mars til 19. júní 2020.
Rekstraraðgerðir á næstu mánuðum munu miða að því að verja félagið fyrir frekari áföllum næsta vetur og í gegnum þá miklu óvissu sem nú ríkir og mun ríkja áfram í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Góð afkoma félagsins á árinu 2019 styrkir félagið til að takast á við tekjumissi vegna lokunar, fall í fjölda erlendra ferðamanna á þessu ári og óvissuna með framhaldið.
Stefnumörkun – samfélagsábyrgð
Í allri starfsemi Bláa Lónsins er lögð áhersla á að skapa umhverfi þar sem allir geta notið sín á öruggan hátt, bæði gestir og starfsfólk. Náttúran er ekki óþrjótandi auðlind og því er sjálfbærni mikilvægur þáttur í rekstri félagsins í góðri sátt og samvinnu við samfélagið. Fyrirtækið stefnir að því að vera fyrirmynd innan ferðaþjónustunnar og veita tiltækan stuðning í samfélagsmálum.
Árið 2019 var stofnaður þverfaglegur hópur um samfélagsábyrgð innan fyrirtækisins, með það að markmiði að aðstoða reksturinn við að innleiða megináherslur samfélagsábyrgðar, þróa stefnu í samfélagsmálum og bæta árangursvísa í samfélags- og umhverfismálum.
Hagsmunaaðilar Bláa Lónsins
Árið 2019 leitaði Bláa Lónið til hagsmunaaðila fyrirtækisins, starfsfólks og viðskiptavina, með það að markmiði að bæta enn frekar verkferla og vinnuumhverfið. Markmiðið var að kortleggja upplifunarferli starfsfólks og gesta innan Bláa Lónsins.
Upplifunarferli starfsfólks var kortlagt með viðtölum, eftirfylgni og athugunum sem leiddi af sér mikið gagnasafn sem skilaði af sér níu umbótaskýrslum.
Upplifunarferli viðskiptavina var kortlagt með viðtölum, könnunum og upplýsingatöflum sem leiddu af sér yfir 300 umbótatækifæri og mörg þeirra voru sett strax í ferli.
Áherslur 2020
Við stefnum ávallt að stöðugum umbótum í rekstri og verður árið 2020 engin undantekning á því.
Árið 2020 er stefnt að því að :
-
Auka enn frekar samskipti við helstu hagsmunaaðila fyrirtækisins.
-
Skoða hvernig Bláa Lónið getur enn frekar aðlagað rekstraráætlanir sínar að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
-
Ráðast í fjölda umbótaverkefna í umhverfismálum og samfélagsmálum til að auðga og betrumbæta rekstur og samfélagsleg tengsl.
Markmið og umbótaverkefni í umhverfismálum
Markmið umhverfismála árið 2020 eru byggð á umhverfisstefnu og sjálfbærniáætlun Bláa Lónsins. Sérstök áhersla er lögð á að draga úr umhverfisspori fyrirtækisins m.t.t. losun gróðurhúsalofttegunda, úrgangsmála og aukinnar sjálfbærni í rekstri.
Til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda stefnum við að því að stýra betur nýtingu á handklæðum, bæta við rafhleðslustöðvum bíla og bjóða plug-in-hybrid bíla í rekstrarleigu. Til að meta betur umfang kolefnisjöfnunar munum við reikna út losun vegna flutnings á vörum, máltíða gesta og húðvara Bláa Lónsins Heilsuvara ehf. (BLH), frá framleiðslu að dyrum viðskiptavina.
Til að bæta úrgangsmál fyrirtækisins er stefnt að því að:
- Draga úr prentun pappírs með rafvæðingu ferla og verklags, innleiðingu nýrra kerfa eins og Microsoft Teams og skjalastýringu í SharePoint.
- Bæta vistvæn innkaup fyrirtækisins.
- Hefja vistferilsgreiningu á jarðsjónum og skin care vörum BLH.
- Auka flokkun á plasti og senda í endurvinnslu til PureNorth á Íslandi.
- Draga úr notkun á einnota plasti í upplifun gesta hjá Bláa Lóninu.
- Draga úr magni umbúða í vöruflutningum og nota pappaumbúðir frekar en plast.
- Auka fjölnota umbúðir í stað einnota umbúða í rekstri.
Þessum verkefnum verður fylgt eftir út árið og verður árangur metinn út frá eftirfarandi markmiðum í umhverfismálum árið 2020:
Áherslur í öryggis- og heilsumálum
Segja má að fyrstu mánuðir ársins 2020 hafi einkennst af áður óþekktum aðstæðum og áskorunum í öryggis- og heilsumálum. Jarðhræringar, möguleg kvikusöfnun í Svartsengi og óveður voru í brennidepli í upphafi árs þar til COVID-19 faraldurinn tók við. Í ljósi þessara aðstæðna hafa áherslur í öryggis- og heilsumálum snúið fyrst og fremst að því að yfirfara og samræma viðbragðsáætlanir fyrirtækisins og aðgerðir með öðrum viðbragðsaðilum í samfélaginu. Bláa Lónið leggur eftir sem áður áherslu á að styðja við velferð og tryggja sem best öryggi starfsfólks og gesta Bláa Lónsins.
Áherslur í mannauðsmálum
Áhersla verður lögð á að byggja mannauðinn upp í kjölfar skipulagsbreytinga sem áttu sér stað á árinu 2020. Í kjölfar Covid-19 faraldursins þurfti að ráðast í óhjákvæmilegar aðgerðir og þar með uppsagnir fjölda starfsfólks. Vonast er til að hægt verði að ráða það fólk aftur til starfa og því er mikil áskorun framundan að halda vel utan um starfsmannahópinn til að viðhalda góðri vinnustaðamenningu fyrirtækisins. Til að fylgjast með því verða framkvæmdar örari vinnustaðagreiningar en áður og farið í fjölda umbóta með það að markmiði að auka starfsánægju og stolt starfsfólks.
Eftirfarandi mælikvarðar verða vaktaðir út árið til að meta árangur umbóta og stöðu mannauðsmála: