Grímur Sæmundsen

„Bláa Lónið vex með samfélaginu og samfélagið með fyrirtækinu.”

Árið 2019 byrjaði vel þó svo að blikur hafi verið á lofti með flug til og frá landinu. Gjaldþrot flugfélagsins WOW í lok marsmánaðar, sem þá flaug með um 30% af öllum ferðamönnum til landsins hafði mest með það að segja að ferðamönnum til landsins fækkaði um 14% á síðasta ári. Þrátt fyrir það jukust tekjur Bláa Lónsins um rétt tæp 2% á sama tímabili.

Á sama tíma og árið 2018 var ár uppbyggingar og vaxtar m.a. vegna opnunar á hótel- og uppbyggingarsvæði undir merkjum The Retreat og tveggja veitingastaða má segja að árið 2019 hafi verið ár skilvirkni í rekstri, hagræðingar og undirbúnings frekari markaðssóknar með húðvörur félagsins.

Þrátt fyrir erfiðari ytri skilyrði í lok ársins 2019 óraði engan fyrir því sem koma skyldi. Vond færð og veður settu mark sitt á rekstur félagsins fyrstu vikur ársins 2020 með tilheyrandi afbókunum, hliðrunum og lokunum. Jarðhræringar og kvikusöfnun í Svartsengi sigldu í kjölfarið. Stuttu síðar fóru að berast fréttir um veirusýkingu í Asíu, Covid-19, sem varð að heimsfaraldri eins og hendi væri veifað. Afleiðing þessa var að 23. mars sl. var félaginu gert að loka öllum sínum starfsstöðvum þar sem ferðabanni milli landa og samkomubanni hér innanlands var komið á eins og annars staðar um heimsbyggðina. Skemmst er frá því að segja að þessi lokun varði til 19. júní sl. þegar Bláa Lónið opnaði allar sínar starfsstöðvar að nýju fyrir gesti. Hafði fyrirtækið þá verið lokað í um þrjá mánuði og verið nær tekjulaust allan þann tíma.

„Sérstök áhersla á stafræna þróun, innleiðingu grunnkerfa og bestun í rekstri voru leiðarstefin á árinu auk undirbúnings markaðssóknar með húðvörur félagsins.”

Á árinu 2019 tók Bláa Lónið á móti um einni milljón gesta. Um var að ræða fækkun á milli ára sem rekja má til fækkunar ferðamanna. Meðaltekjur á hvern gest hækkuðu þó nokkuð en aukin áhersla á ýmsar nýjungar og þróun í upplifun gesta hafði þar töluverð áhrif.

Árið 2019 var fyrsta heila starfsár Retreat hótels, Retreat Spa og veitingastaðarins Moss og gekk reksturinn vel. Viðtökur gesta hafa verið sérlega góðar en staðirnir hlutu fjölda innlendra og alþjóðlegra verðlauna á árinu fyrir einstaka upplifun gesta, þjónustu, umgjörð, hönnun og magnað umhverfi. Þá hefur veitingastaðurinn Moss vakið verðskuldaða athygli og hlotið einróma lof meðal gesta og matargagnrýnenda auk Michelin viðurkenningar fyrir einstaka matarupplifun og framúrskarandi þjónustu.

Öflugt og gott starfsfólk er stærsta auðlind Bláa Lónsins, en styrkurinn liggur ekki síst í mismunandi menntunarstigi, menningu og þjóðerni þess. Í lok árs 2019 störfuðu hjá félaginu 809 starfsmenn af 40 mismunandi þjóðernum. Starfsmenn Bláa Lónsins hafa mikið að segja með upplifun gesta okkar. Við mælum reglulega ánægju þeirra. Þannig nam svokallað NPS skor 56,2 stigum, en þessi mæling er vísbending um ánægju gesta og hversu líklegir þeir eru að mæla með Bláa Lóninu við vini og fjölskyldu. Þetta skor þykir afar gott í öllum alþjóðlegum samanburði og helst vel í hendur við mælingar fyrri ára. Óhætt er að segja að við höfum ekki síður staðist væntingar gesta okkar í Retreat spa en NPS skor þeirra nam rúmlega 84 stigum á síðasta ári sem verður að teljast einstaklega gott í öllum samanburði.

Bláa Lónið leggur mikla áherslu á fræðslu og starfsþróun starfsfólks og er stöðugt verið að leita leiða til að ná enn betri árangri í að efla þekkingu og hæfni þeirra og byggja þannig upp enn öflugri liðsheild. Á árinu 2019 var innleitt nýtt stafrænt fræðslukerfi sem er nú hluti af Bláa Lóns Akademíunni. Kerfið hefur greitt leið fyrir frekari fræðslu og menntun starfsfólks en þar er boðið upp á ýmis námskeið sem sniðin eru að mismunandi þörfum starfsfólks. Þá erum við stolt að segja frá að á árinu 2019 færðust 60 manns til í starfi innan Bláa Lónsins, en um er að ræða þróun í starfi bæði þvert á fyrirtækið þar sem um ræðir tilfærslu milli deilda og starfsþróun þar sem starfsfólk fékk aukna ábyrgð í starfi.

„Eitt helsta verkefni stjórnenda nú verður að sigla fyrirtækinu farsællega í gegnum þann ólgusjó sem nú ríður yfir, en fyrirtækið ætlar sér að verða tilbúið og leiða viðspyrnu íslenskrar ferðaþjónustu þegar að henni kemur.“

Bláa Lónið hefur allt frá stofnun lagt áherslu á samfélagsábyrgð og hefur nálgun Bláa Lónsins að málaflokknum þróast í takt við vöxt fyrirtækisins og samfélagsins. Á síðasta ári var stofnaður þverfaglegur hópur um samfélagsábyrgð innan fyrirtækisins, með það að markmiði að samþætta megináherslur samfélagsábyrgðar betur að rekstrinum, þróa stefnu í samfélagsmálum og bæta árangursvísa í samfélags- og umhverfismálum með fjölda verkefna og stöðugum umbótum. Í ársskýrslu félagsins í ár fylgir nú í fyrsta sinn skýrsla fyrirtækisins um samfélagsábyrgð (CSR) byggð á stöðlum Global Reporting Initiative (GRI). Samfélagsskýrslan lýsir frammistöðu og umhverfislegum áhrifum af rekstri Bláa Lónsins árið 2019 í samræmi við sjálfbærniviðmið GRI staðlanna. Bláa Lónið átti viðskipti við birgja fyrir um 4 milljarða króna árið 2019. Þar af námu viðskipti við birgja á Reykjanesi tæpum milljarði og var nær helmingur þess viðskipti við birgja í Grindavík. Góð rekstrarafkoma Bláa Lónsins skilar sér ávallt til samfélagsins alls en ekki síst til nærumhverfis fyrirtækisins.

Mikil óvissa einkennir ferðaþjónustu á heimsvísu í dag en óljóst er með öllu hvenær og hvernig markaðir muni opna að nýju. Bláa Lónið byggir á traustum grunni og skiptir þar miklu hvernig stjórn og stjórnendur hafa með ábyrgum hætti stýrt rekstrinum síðustu ár. Eitt helsta verkefni stjórnenda nú verður að sigla fyrirtækinu farsællega í gegnum þann ólgusjó sem nú ríður yfir, en fyrirtækið ætlar sér að verða tilbúið að leiða viðspyrnu íslenskrar ferðaþjónustu þegar að henni kemur.

Start typing and press Enter to search